þriðjudagur, janúar 30, 2007

Ísinn kominn

Ísinn er kominn þ.e. hann kom í gær og fór í dag. Reyndar er nokkur ís í Dýrafirði en hrafl hér og þar um Djúpið. Það rak nokkuð af molum upp á sandinn í Víkinni og ég ætlaði að taka fram íssögina og búa til nokkur listaverk en tók óvart myndavélina í staðinn.

Eins og sést á myndunum þá er ísinn nokkuð hættulegur: Kristín festi sig og Peta átti erfitt með að halda sér á löppunum (á klakanum). Til að skoða fleiri myndir þá smellið á linkinn.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Master blaster


Jæja það er orðið ákveðið, ég ætla í master. Skil reyndar ekkert í mér að gera þetta þar sem ég er nú frekar latur að læra en sæmilegur í feltinu (útivinnunni). Þetta verður í meginatriðum vettvangsvinna yfir tvö sumur og svo greinaskrif á hljóðlátum vetrarkvöldum. Ég ætla að innheimta skuld við Elsu systir en ég aðstoðaði hanna smávegis við hennar nám. Hún mun auðvitað borga mér þannig að ég fæ Kristínu dóttur hennar í einn mánuð til að hjálpa mér við að merkja sandlóur. Kristín hennar Petu mun örugglega hjálpa mér eitthvað líka en á myndinni má sjá nöfnurnar með sandlóu unga sumarið 2005.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Þorrablót

Jæja það komið að Þorrablóti Bolvíkinga þ.e. næstu helgi. Peta er búin að bjóða mér og ég vona að það þýði að hún borgi allt fyrir mig. Reyndar þurfa konur að bjóða köllunum til að þeir megi fara á blótið nema þeir séu dauðir eða makinn dauður. Svo kannski var hún bara bjóða mér formlega! Svo verður maður að vera með hálstau en hef ekki verið með það í mörg ár. Það er bara vandræði að vera með hálstau, ef maður er með slaufu þá benda þau á stóru eyrun mín. Ef ég er með bindi þá benda þau.......... En einnig er bindið að þvælast fyrir, fer í matinn og Whiskey glasið eða bjórinn. Svo þarf auðvitað binda helv. hnútinn. Það er alltaf vel mætt á þetta blót nema auðvitað ef á árinu eru óvenju margir skilnaðir. Hef heyrt að það geti orðið ansi þröngt þarna og líklega þurfa allir að fara um leið frá borðinu og pissa! Það er kannski ástæðan fyrir að vera með Trog?

Jæja ég á örugglega eftir að skemmta mér vel á blótinu, bindi eða ekki bindi.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Vetrarfuglatalning fyrir austan

Við töldum á gamlaársdag í Reyðarfirði og Eskifirði og Palli Leifs taldi á Norðfirði á nýársdag. Samtals sáust um 9000 fuglar, var mest af æðarfugli (5800), hávellu (1300) og silfurmáf (1100). Fjórir fálkar sáust og verður það að teljast nokkuð mikið á þessu svæði. Einn gráhegri var við Kolmúla í Reyðarfirði, tvær skúfendur í Reyðarfirði og tveir starar á Vattarnesi. Haftyrðlar sáust í öllum fjörðum en þeir eru tiltölulega algengir á þessum tíma. Í fyrra sáust engir og meira að segja aðeins einn svartfugl. Ekkert óvenjulegt sást að þessu sinni nema kannski fyrir utan skúfendur en þær hafa sennilega ekki sést áður í vetrartalningum á þessu svæði. Fjöldi fugla og tegunda (28) er í meðallagi. Talningarmenn voru: Páll Leifsson, Böðvar Þórisson, Petrína F. Sigurðardóttir og Kristín Jónsdóttir.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Áramótin á Eskifirði

Við héldum áramótin fyrir austan og vorum við aðallega pottinum eða spilandi landnemaspilið. Reyndar fór hitastigið í pottinum lækkandi eftir því sem flugeldarnir hækkuðu sig. Vonandi að þetta verði komið í lag þegar við komu næst. Fundum tíma til að telja fugla í Eski- og Reyðarfirði en á þessum tíma eru hinar árlegu vetrarfuglatalningar. Sáum ekkert óvenjulegt nema eitt stykki álver og leirunar horfnar í Reyðarfirði. Jæja gleðilegt ár.