miðvikudagur, október 10, 2007

jólatré

Ég skrifa orðið bara eftir árstíðum, síðast í sumar og núna í haust. Held að það sé alveg nóg enda hef ég ekkert að segja. Ælti næsta færsla verði ekki um jólin svo ég læt þessa jólamynd fylgja. Reyndar er þetta ekki jólatré heldur njólatré. Stærsta tréið í garðinum okkar sem vex reyndar í gegnum sólpallinn en þar kennir nú ýmissa grasa.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Heimsókn og geitungur


Sóley, systir Petu, og hennar fjölskylda var hjá okkur síðustu helgi. Ég sýndi þeim heimkynni sandlóunnar í Bolungarvík sem var reyndar melur með rusli frá síðustu áramótabrennu.
Hjá Sigurði var geitungabú og ég réð sérsveitina til að fanga þá geitunga sem mundi sleppa við svæfinguna. Kristín sá aðeins einn og hún fangaði hann þó stór væri.

fuglaskoðun við Svínavatn

Kristín J. var með okkur í fuglatalningu við Svínavatn í A-Húnavatnssýslu. Fengum prýðis gott veður eins og sést á þessum myndum. Fundum eitt hrossagaukshreiður með þremur ungum.
Mývargurinn var að drepa okkur við Laxá og Svínavatn eins og sést á myndinni þar sem Kristín er með slæðu fyrir andlitið en svona var hún í 3 tíma. Mýið settist gjarnan inn í eyrun á manni og náði ég einni flugu, dauðri, tveimur dögum seinna úr öðru eyranum.

mánudagur, maí 14, 2007

Kyngreining sandlóu


Ég hef ákveðið að setjast aftur á skólabekk eins og það er nú gaman. Fer í master í haust og rannsóknarverkefnið mitt mun tengjast sandlóunni þá sérstaklega varpárangri hennar. Það getur verið mjög gott að þekkja kynin í sundur og yfirleitt má leiða því líkum að kvenfuglinn sé sá neðri eins og sést á myndinni. En ég hef nú ekki þolinmæði að bíða eftir þessu sjónarspili svo ég greini fuglanna yfirleitt á búningseinkennum.

laugardagur, maí 05, 2007

Fuglaskoðun

Ég og Peta fórum á Látrabjarg um síðustu helgi og auðvitað var stoppað allsstaðar þar sem möguleiki var að sjá einhverja merkilega fugla eins og t.d. sandlóur. Á Barðastöndinni sáum við smyril en ég hef aldrei náð almennri mynd af karlfuglinum fyrr en núna. Hann var frekar spakur í rokinu, kannski ný kominn að utan og því örþreyttur. Af öðru sáum við svo sem ekkert merkilegt nema það farfuglarnir voru greinilega að koma inn þessa dagana.

sunnudagur, apríl 15, 2007

ég fór suður þegar aldrei var suður





Ég kíkti á tónleikana á föstudaginn þ.e. tónleikana aldrei fór ég suður. Svo fór ég auðvitað suður á daginn eftir. Ágætis tónleikar þó sumt hefði mátt sleppa. Pétur Ben var helv... fínn, Bógómil í lagi og svo voru Mínus auðvitað helv. góðir. Mig hlakkaði mest til að sjá Blonde Readhead en það tók þá klukkutíma að gera sig klára og svo var soundið ömurlegt. Verst síðan að missa af laugardeginum.

sunnudagur, mars 25, 2007

Svartþröstur á Hanhóli

Ég tók þessa mynd inni í Syðridal í Bolungavík en svartþrösturinn á myndinni er búinn að vera á Hanhóli hátt í tvær vikur. Maður hefur sjálft verið nokkuð perralegur að sjá með myndavél og kíkir að sniglast í kringum íbúðarhúsið á Hanhóli. En flestir vita sem betur fer að ég er meinlaus.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Gefa smáfuglunum

Það var leiðinda veður í gær og í dag eins og má sjá á myndunum. Snjótittlingarnir komu um leið og ég setti út mat handa handa þeim. Um kvöldið var ein hagamús komin í ætið, Peta sagði að hún mætti ekki koma inn. Loksins þegar einhver kemur að heimsækja mig, djöf...........


sunnudagur, mars 04, 2007

Lisa Ekdal - tónleikar


Við fórum á stórgóða tónleika í gærkveldi í Víkurbæ í Bolungarvík. þar var komin sænska þokkagyðjan Lisa Ekdal. Með henni var gítarleikari, munnhörpuleikari, píanóleikari, bassaleikari og flautleikari þ.e. hann flautaði. Reyndar var þetta allt sami maðurinn og bestur var hann líklega í flautinu, helv...góður.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Fuglatalning í Jökulfjörðum

Í dag var ég ásamt fleirum í fuglatalningum í Jökulfjörðum. Veður var áægtt en helv. kalt. Við sáum nóg af fuglum en einnig sáum við þrjá refi, tvo dökka og einn hvítan. Sá hvíti var spakur og svaf á meðan við sigldum framhjá honum. Hann hljóp svo fyrir okkur svo við sæjum betur fjésið á honum.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Í sundi

Ég prufaði nýju skíðin mín um helgina, náði að detta í fyrstu ferð og það náðist mynd en hún verður ekki sýnd hér. Bernódus var hjá okkur um helgina og hann fór á skíði með ömmu sinni. Það gekk nú bara ágætlega að ég held. Kristín prufaði bretti hjá vinkonu sinni og það gekk furðu vel hjá henni. Við fórum síðan í sund á eftir og tók ég þessa mynd af Dusa og ömmu sinni.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Skarfur skítrass

Daglega um fimmleyti fljúga hér skarfar yfir húsinu okkar. Það er búið að vera mjög fallegt veður undanfarið svo maður hefur tekið betur eftir þessu. Þetta eru aðallega ungir dílaskarfar og flúga þeir fyrst yfir setstaðinn og svo yfir húsið okkar. Við sáum tvær nýjar tegundir út um eldhúsgluggan um daginn en það var fálki og lómur. Þá erum við komin í 32 tegundir. Jæja nóg af fuglafréttum.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Ísinn kominn

Ísinn er kominn þ.e. hann kom í gær og fór í dag. Reyndar er nokkur ís í Dýrafirði en hrafl hér og þar um Djúpið. Það rak nokkuð af molum upp á sandinn í Víkinni og ég ætlaði að taka fram íssögina og búa til nokkur listaverk en tók óvart myndavélina í staðinn.

Eins og sést á myndunum þá er ísinn nokkuð hættulegur: Kristín festi sig og Peta átti erfitt með að halda sér á löppunum (á klakanum). Til að skoða fleiri myndir þá smellið á linkinn.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Master blaster


Jæja það er orðið ákveðið, ég ætla í master. Skil reyndar ekkert í mér að gera þetta þar sem ég er nú frekar latur að læra en sæmilegur í feltinu (útivinnunni). Þetta verður í meginatriðum vettvangsvinna yfir tvö sumur og svo greinaskrif á hljóðlátum vetrarkvöldum. Ég ætla að innheimta skuld við Elsu systir en ég aðstoðaði hanna smávegis við hennar nám. Hún mun auðvitað borga mér þannig að ég fæ Kristínu dóttur hennar í einn mánuð til að hjálpa mér við að merkja sandlóur. Kristín hennar Petu mun örugglega hjálpa mér eitthvað líka en á myndinni má sjá nöfnurnar með sandlóu unga sumarið 2005.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Þorrablót

Jæja það komið að Þorrablóti Bolvíkinga þ.e. næstu helgi. Peta er búin að bjóða mér og ég vona að það þýði að hún borgi allt fyrir mig. Reyndar þurfa konur að bjóða köllunum til að þeir megi fara á blótið nema þeir séu dauðir eða makinn dauður. Svo kannski var hún bara bjóða mér formlega! Svo verður maður að vera með hálstau en hef ekki verið með það í mörg ár. Það er bara vandræði að vera með hálstau, ef maður er með slaufu þá benda þau á stóru eyrun mín. Ef ég er með bindi þá benda þau.......... En einnig er bindið að þvælast fyrir, fer í matinn og Whiskey glasið eða bjórinn. Svo þarf auðvitað binda helv. hnútinn. Það er alltaf vel mætt á þetta blót nema auðvitað ef á árinu eru óvenju margir skilnaðir. Hef heyrt að það geti orðið ansi þröngt þarna og líklega þurfa allir að fara um leið frá borðinu og pissa! Það er kannski ástæðan fyrir að vera með Trog?

Jæja ég á örugglega eftir að skemmta mér vel á blótinu, bindi eða ekki bindi.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Vetrarfuglatalning fyrir austan

Við töldum á gamlaársdag í Reyðarfirði og Eskifirði og Palli Leifs taldi á Norðfirði á nýársdag. Samtals sáust um 9000 fuglar, var mest af æðarfugli (5800), hávellu (1300) og silfurmáf (1100). Fjórir fálkar sáust og verður það að teljast nokkuð mikið á þessu svæði. Einn gráhegri var við Kolmúla í Reyðarfirði, tvær skúfendur í Reyðarfirði og tveir starar á Vattarnesi. Haftyrðlar sáust í öllum fjörðum en þeir eru tiltölulega algengir á þessum tíma. Í fyrra sáust engir og meira að segja aðeins einn svartfugl. Ekkert óvenjulegt sást að þessu sinni nema kannski fyrir utan skúfendur en þær hafa sennilega ekki sést áður í vetrartalningum á þessu svæði. Fjöldi fugla og tegunda (28) er í meðallagi. Talningarmenn voru: Páll Leifsson, Böðvar Þórisson, Petrína F. Sigurðardóttir og Kristín Jónsdóttir.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Áramótin á Eskifirði

Við héldum áramótin fyrir austan og vorum við aðallega pottinum eða spilandi landnemaspilið. Reyndar fór hitastigið í pottinum lækkandi eftir því sem flugeldarnir hækkuðu sig. Vonandi að þetta verði komið í lag þegar við komu næst. Fundum tíma til að telja fugla í Eski- og Reyðarfirði en á þessum tíma eru hinar árlegu vetrarfuglatalningar. Sáum ekkert óvenjulegt nema eitt stykki álver og leirunar horfnar í Reyðarfirði. Jæja gleðilegt ár.